Umboðsmaður Alþingis hefur sent öllum ráðuneytum í Stjórnarráðinu bréf þar sem hann vekur athygli á því að samkvæmt lögum sé skylt að veita upplýsingar um starfsheiti umsækjenda um opinbert starf þegar umsóknarfrestur er liðinn.
Þegar listar yfir umsækjendur um opinber störf eru birtir eru starfsheiti umsækjenda oft ekki tilgreind. Slíkt er þó skylt þegar upplýsingarnar eru afhentar samkvæmt beiðni og er markmiðið þá að mæta sjónarmiðum um opna stjórnsýslu og stuðla að opinni umræðu um stöðuveitingar hjá opinberum aðilum. Í bréfi sínu lýsir umboðsmaður þeirri afstöðu að þegar stjórnvöld eiga frumkvæði að birtingu umsækjendalista verði að ganga út frá því að starfsheiti umsækjendanna séu tilgreind rétt eins og þegar einhver hefur óskað sérstaklega eftir því að fá upplýsingarnar afhentar. Að öðrum kosti geti slíkt frumkvæði í reynd haft þau áhrif að minna gegnsæi verði um upplýsingar sem löggjafinn hefur ákveðið að eigi erindi við almenning.
Umboðsmaður hefur óskað þess að ráðuneytin komi ábendingum hans á framfæri við stofnanir og önnur stjórnvöld sem heyra undir þau.
Bréfið er birt
hér.