16. janúar 2017

Ábending vegna siðareglna ráðherra afgreidd

Umboðsmaður hefur lokið athugun sinni á ábendingu formanns þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um meint brot fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra á siðareglum ráðherra.


Ábendingin barst 9. janúar sl. og laut að því að ráðherrann hefði með því að draga það að birta skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera brotið gegn c-lið 6. gr. siðareglna ráðherra þar sem um hafi verið að ræða upplýsingar sem vörðuðu almannahag.

Í bréfi til þingflokksformannsins gerir umboðsmaður grein fyrir því að í ljósi þess að ráðherrann fyrrverandi hafi í Kastljósi RÚV  11. janúar sl. lýst því að hann telji að það hafi verið mistök af sinni hálfu að birta ekki skýrsluna mun fyrr og þá áður en gengið var til alþingiskosninga í október sl. sé ekki tilefni til þess að taka ábendinguna til frekari athugunar á grundvelli hennar. Umboðsmaður fjallar í bréfi sínu einnig um orð ráðherrans um hvernig birting skýrslunnar hefði getað og geti rennt traustari stoðum undir umræðu um þau mál sem hún fjallar um og telur að þau, efni skýrslunnar og að hverju var stefnt með samantekt hennar séu til marks um að ekki sé ágreiningur um að þær upplýsingar sem koma fram í skýrslunni varði almannahag. Bréfið í heild er birt hér.

Umboðsmaður gerir í bréfinu einnig grein fyrir máli sem hann tók upp að eigin frumkvæði og er nú til lokavinnslu. Þar mun umboðsmaður fjalla með með almennum hætti um þær skyldur og heimildir sem stjórnvöld hafa til að veita almenningi, og þá t.d. fjölmiðlum og kjörnum fulltrúum fyrir þeirra hönd, aðgang að upplýsingum og gögnum sem varðveitt eru eða verða til hjá opinberum aðilum. Þessi umfjöllun mun taka mið af þeim breytingum sem orðið hafa á lögum og reglum um þessi mál, s.s. með nýjum upplýsingalögum frá árinu 2012 og siðareglum, og með hliðsjón af framkvæmd þessara mála af hálfu stjórnvalda. Athugun umboðsmanns á áðurnefndri ábendingu hefur jafnframt orðið honum tilefni til að óska eftir að fjármála- og efnahagsráðuneytið láti honum í té ákveðin gögn og upplýsingar sem varða m.a. tilurð, birtingu og samskipti við fjölmiðla vegna skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum sem hann geti haft til hliðsjónar í umræddu frumkvæðismáli. Bréfið til ráðuneytisins má sjá hér.