26. mars 2013

Deiliskipulag og flutningur aldurshópa milli grunnskóla

Á árinu 2012 barst umboðsmanni Alþingis kvörtun íbúa í Staðahverfi í Reykjavík sem töldu flutning á þremur efstu bekkjum úr grunnskóla hverfisins brjóta gegn skipulagsskilmálum borgarinnar. 

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu í desember það ár og leiðbeindi málsaðilum um að leita til innanríkisráðuneytisins sem ráðuneytis sveitarstjórnarmála vegna málsins.

Við meðferð málsins lýsti umhverfis- og auðlindaráðuneytið þeirri afstöðu sinni að nauðsynlegt hefði verið að breyta deiliskipulagi í aðdraganda slíkra breytinga. Umboðsmaður taldi því rétt að óska eftir upplýsingum um það hvort ráðuneytið hefði eða áformaði að bregðast við í tilefni af vitneskju þess um atvik í málinu gagnvart Reykjavíkurborg og/eða Skipulagsstofnun sem hafði lýst annarri afstöðu til þess hvort slíkt væri skylt. Í framhaldi af svari ráðuneytisins hugðist umboðsmaður ákveða hvort tilefni væri til þess að fjalla frekar um eftirlitsskyldur ráðuneytisins að þessu leyti á grundvelli heimilda sinna til að taka mál til meðferðar að eigin frumkvæði.

Í svarbréfi ráðuneytisins af þessu tilefni er gerð grein fyrir samskiptum þess við Skipulagsstofnun vegna málsins. Svarinu fylgdi bréf ráðuneytisins til Skipulagsstofnunar þar sem ráðuneytið áréttar þá afstöðu sína að ef ætlunin hefði verið að hafa grunnskóla eingöngu fyrir afmarkaðan aldurhóp hefði Reykjavíkurborg orðið að taka það fram í greinargerð deiliskipulagsins. Í bréfinu kemur jafnframt fram að ráðuneytið telji rétt að Skipulagsstofnun leiðbeini Reykjavíkurborg um nauðsyn þess að breyta deiliskipulagi fyrir Staðahverfi vegna þeirrar ákvörðunar borgarinnar að grunnskóli Staðahverfis skuli aðeins þjónusta hluta grunnskólabarna í hverfinu.

Í ljósi viðbragða ráðuneytisins taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari afskipta af málinu.

Sjá reifun málsins

Sjá nánar um samskipti umboðsmanns við stjórnvöld og málsaðila við athugun málsins (Pdf - 214 Kb)